top of page

Frí heilun

Sálarrannsóknarfélagið á Akureyri hóf að bjóða upp á fría heilun um 1980 yfir vetrartímann og hafa margir komið að því starfi gegnum árin.

Á vordögum 2025 starfa 25 manns við fríu heilunina hjá félaginu og er hún í boði allt árið. Þeir heilarar sem starfa við fríu heilunina gefa vinnu sína. Heilunin er gefin ýmist á bekk eða stól, einn í einu. Unnið er með eða án snertingar eftir heilurum en enginn meðferðarþegi er snertur án leyfis. 

Allir eru velkomnir í heilun hjá félaginu.

Vetrartími: Mið. kl. 16-18:00 & lau. kl. 10-12.

Sumartími: Mið. kl. 16-18.

Lengri heilun

Sumir heilaranna sem starfa við fríu heilunina bjóða einnig upp á lengri heilanir gegn gjaldi.

Leitið upplýsinga hjá hverjum og einum heilara. 

Energy Healing

Velkomin

Verið hjartanlega velkomin í heilun til okkar

Hvað er heilun?

Heilun er hugtak sem oftast vísar til meðferða sem miða að því að hafa áhrif á orkuflæði líkamans. Grunnviðhorfið að baki slíkri meðferð er að í líkamanum – og allt í kringum hann – streymir fínstillt, ósýnileg lífsorka um ákveðnar orkubrautir og orkustöðvar. Þessi orka takmarkast ekki við líkamann sjálfan heldur myndar orkureiti eða svið sem umlykja hann og eru órjúfanlegur hluti af orkulífi einstaklingsins.

Hlutverk heilara eða meðferðaraðila er að skynja og greina ójafnvægi í þessu orkukerfi – hvort sem það birtist í orkubrautum, orkustöðvum eða orkusviðum – og styðja við endurjöfnun með handayfirlagningu, fjarheilun eða öðrum aðferðum. Markmiðið er að styrkja náttúrulega heilunarferla líkamans og styðja við andlega og líkamlega vellíðan.

Lífsorkan sem hér er til umfjöllunar gengur undir mismunandi nöfnum eftir menningarheimum: í Kína kallast hún qi, í Japan ki og á Indlandi prana. Þessi lífsorka er lykilhugtak í sumum af elstu og djúpstæðustu lækningakerfum heimsins, þar á meðal indverskri Ayurveda og kínverskri læknisfræði.

Í gegnum aldirnar hafa fjölbreyttar aðferðir þróast til að virkja og jafna orkuflæði líkamans, allt frá hugleiðslu og öndunartækni til snertingar og hljóðnotkunar. 

  • Instagram
  • Facebook

© 2025 Sálarrannsóknarfélagið á Akureyri

bottom of page